Nýju persónuverndarlögin sem taka gildi 25. maí nk. eru mikið í umræðunni og vangaveltur meðal annars um hver áhrifin verða á sölu og markaðssetningu.
Rannsóknir sýna að neytendur ætlast til að fá klæðskerasniðna og persónulega þjónustu frá fyrirtækjum. Neytendur vilja að fyrirtæki þekki þeirra þarfir og væntingar og hafa ekki áhuga á að vera áreitt með auglýsingum, efni og tilboðum sem höfða ekki til þeirra.
Klæðskerasniðin og persónuleg sölu og markaðssetning eru lykilþættir í Omni channel sölu og markaðssetningu en til að geta veitt klæðskerasniðna og persónulega þjónustu er nauðsynlegt að safna saman gögnum um kauphegðun neytenda. Hér munu því nýju persónuverndarlögin hafa mikil áhrif.
Nýju persónuverndarlögin munu hafa áhrif á hvernig gögnum um neytendur er safnað, af hverju það er verið að safna þeim, hvernig þau eru geymd og hvernig þau eru notuð. Spurning er því hvernig geta fyrirtæki áfram nýtt klæðskerasniða og persónulega markaðssetningu innan nýrra persónuverndarlaga. Förum yfir nokkur lykilatriði er snúa að sölu og markaðssetningu.
Samþykki
Neytendur þurfa að veita leyfi fyrir því að fyrirtæki safni saman upplýsingum um þá. Neytendur verða að gefa leyfi fyrir hverju atriði, þ.e.a.s fyrirtæki þurfa að upplýsa nákvæmlega hverju er verið að veita leyfi fyrir, upplýsingarnar þurfa að vera skýrar og nákvæmar, enginn vafi má leika á því hvernig gögnin verða notuð. Ekki er leyfilegt að vera búin að “haka” fyrirfram í box til að fá samþykki neytenda.
Með því að gefa samþykki eru neytendur að veita fyrirtækjum leyfi til að nota upplýsingar um sig í tiltekinn tíma og í tilteknum ásetningi. Gögnin eru ávallt í eigu neytandans og getur hann afturkallað leyfið hvenær sem er og krafist þess að gögnunum verði eytt.
Tilgangur
Fyrirtæki þurfa að skilgreina á skýran hátt fyrir neytendum hvernig gögnin verða notuð og í hvaða tilgangi. Gagnsæi í notkun gagna er skilyrði. Gögnin eiga eingöngu að vera notuð svo hægt sé að uppfylla þann tilgang sem þau voru ætluð í.
Ef nota á upplýsingar um neytendur (t.d. netfang) í fleiri en einum tilgangi þá þarf að fá samþykki fyrir hverju fyrir sig. Fyrirtæki þurfa að sýna fram á hvenær og hvernig leyfi var fengið og fyrir hverju viðkomandi veitti leyfi.
Ekki er heimilt að “fela” upplýsingar um notkun gagna í smáa letrinu.
Geymsla
Persónuleg gögn um neytendur á ekki að geyma lengur en nauðsynlega þarf til að ná þeim tilgangi sem leyfi var fengið fyrir. Mikilvægt er að sjá til þess að ekki sé hægt að misnota persónuleg gögn um neytendur á nokkurn hátt, eins og að selja gögn til þriðja aðila án vitundar og samþykkis neytenda.
Neytendur hafa rétt á að fá að vita hvernig persónuleg gögn um þá eru notuð og hver notar þau, fá afrit af gögnunum, láta leiðrétta gögn og/eyða þeim, takmarka notkun, láta senda gögn á þriðja aðila og að banna sjálfvirka úrvinnslu gagnanna.
Tækifæri
En nýju lögin eru ekki bara hindrun fyrir fyrirtæki heldur líka gríðarlega stórt tækifæri. Fyrirtæki geta ræktað langtíma samband við neytendur sem er byggt á trausti og sameiginlegum ávinningi beggja aðila með því að safna saman réttum gögnum um neytendur til að geta þjónustað viðskiptavini betur. Langtíma samband sem hefur þarfir og væntingar neytandans að leiðarljósi. Einmitt það sem Omni channel sölu og markaðssetning snýst um, viðskiptavina miðuð nálgun í allri sölu og markaðssetningu, sama hvaða kanala eða snertifleti er verið að nota og hvenær sem er á kaupferlinu.
Nýju persónuverndarlögin eru því tækifæri til að safna réttum upplýsingum í stað þess að safna eða jafnvel kaupa upplýsingar sem nýtast fyrirtækinu á engan hátt til að veita sínum neytendum klæðskerasniða og persónulega þjónustu.
Heimildir: digitalclaritygroup.com, royalmail.co.uk, campaignlive.co.uk, channelsight.com